Innlent

Tveggja mánaða fangelsi fyrir brot gegn barni og vörslu barnakláms

MYND/E.Ól

Karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 300 þúsund króna í miskabætur fyrir að hafa sært blygðunarsemi ungrar stúlku með því að sýna henni tvær klámmyndir í tölvu sinni, þar á meðal aðra sem sýndi barn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, og fyrir að hafa rúmlega 40 ljósmyndir og 21 hreyfimynd í tölvu sinni með barnaklámi.

Atvikið átti sér stað í júlí í fyrra en þá bauð maðurinn stúlkuni inn til sín og sýndi henni klámmyndirnar. Faðir stúlkunnar kærði athæfið og í kjölfarið var gerð húsleit hjá manninum og tölva hans gerð upptæk. Þar fundust fimm ljósmyndir og 21 hreyfimynd og við rannsókn á harða diski tölvunnar fundust 35 barnaklámsljósmyndir til viðbótar sem maðurin hafði afmáð.

Fyrir dómi bar hann að stúlkan hefði fyrir mistök séð klámmyndirnar og þá sagðist hann hafa ætlað að ná sér í léttblátt efni og erótískt á Netinu. Dómurinn segir stúlkuna hafa verið staðfasta í framburði sínum en framburður mannsins þótti um margt mótsagnarkenndur. Er meðal annars bent á að fullyrðingar mannsins um að hann hafi verið að leita að léttbláu efni á Netinu veki furðu því nánast ekkert slíkt efni hafi fundist á tölvu hans heldur nær eingöngu barnaklám.

Þótti dómnum því sekt hans sönnuð og var hann dæmdur í tveggja mánaða fangelsi sem er skilorðsbundið til tveggja ára. Þá var hann dæmdur til að greiða stúlkunni 300 þúsund krónur í miskabætur auk 200 þúsund króna sektar í ríkissjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×