Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri situr í gæsluvarðhaldi eftir að hafa verið handtekinn í Leifsstöð með stærstu kókaínsendingu sem fundist hefur í fórum eins manns til þessa. Tollgæslan hefur lagt hald á samtals átta kíló af kókaíni það sem af er árinu eða áttfalt meira en allt árið í fyrra.
Þetta gerðist við komu mannsins frá Kaupmannahöfn í síðustu viku og nemur magnið af kókaíni þremur kílóum. Það er kílói meira en ung kona reyndi að smygla til landsins í fyrra, sem þá var langstærsta sending til þess tíma.
Smásöluandvirði efnisins sem maðurinn smyglaði núna gæti numið þrjátíu milljónum og allt upp í hundrað og fjörutíu milljónir króna, eftir styrkleika efnisins. Efnið var vandlega falið í farangri hans.
Ekkert liggur fyrir um það hvort fleiri hafa verið handteknir vegna málsins og varðist lögregla frekari fregna í morgun en líklegt má telja, með hliðsjón af umfangi málsins, að hann hafi átt sér vitorðsmann eða -menn.
Starfsmenn sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli og fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík vinna að rannsókn málsins.
Tollgæslan hefur lagt hald á samtals átta kíló af kókaíni það sem af er árinu, eða áttfalt meira en allt árið í fyrra þegar hald var lagt á aðeins eitt kíló.