Innlent

Fimm fíkniefnamál í Reykjavík um helgina

Fimm fíkniefnamál komu til kasta lögreglunnar í Reykjavík um helgina en í þeim öllum fundust ætluð fíkniefni eins og lögregla kallar það. Á föstudagskvöld voru tveir karlmenn handteknir í miðbænum fyrir áðurnefndar sakir og aðfaranótt laugardags var þriðji karlmaðurinn stöðvaður í miðbænum af sömu ástæðu.

Tvær konur voru svo fluttar á lögreglustöð um hádegisbil á laugardag en þær voru handteknar á gististað í austurbænum. Þær voru sömuleiðis taldar hafa gerst sekar um fíkniefnamisferli.

Aðfaranótt sunnudags komu svo upp tvö fíkniefnamál. Tveir karlmenn voru færðir á lögreglustöð eftir að ætluð fíkniefni fundust í bíl þeirra. Þá voru tveir karlmenn handteknir í húsi í borginni en þriðji maðurinn á staðnum var meðvitundarlaus þegar að var komið. Sá var fluttur á slysadeild en hinir voru færðir í fangageymslu. Í húsinu fundust ætluð fíkniefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×