Innlent

180 þúsund króna sekt fyrir vörslu og sölu fíkniefna

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra.

Karlmaður hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdur til að greiða 180 þúsund króna sekt og til upptöku á nærri átta grömmum af amfetamíni fyrir sölu og vörslu fíkniefna. Þá var kona dæmd til greiðslu 30 þúsund króna vegna vörslu amfetamíns í sama máli.

Karlmaðurinn var handtekinn á tjaldstæði á Akrueyri aðfararnótt sunnudags um síðustu verslunarmannahelgi grunaður um fíkniefnasölu en hann hafði skömmu áður selt konunni 0,3 grömm af amfetamíni. Hvorugt mætti til dómara þegar málið var tekið fyrir og þótti mega jafna þá útivist við játningu þeirra.

Karlmaðurinn hafði áður hlotið sekt fyrir fíkniefnabrot og umferðarlagabrot og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Konan hafði hins ekki komist áður í kast við lögin. Þótti 180 þúsund króna sekt fyrir karlmanninn hæfileg refsing en hann skal sitja í 12 daga í fangelsi ef hann hefur ekki greitt sektina innan fjögurra vikna. Sekt konunnar nemur sem fyrr segir 30 þúsund krónum en hún skal sæta tveggja daga fangelsi hafi hún ekki greitt sektina innan sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×