Innlent

Safnað fyrir fíkniefnahundi fyrir lögregluna á Selfossi

Sunnlendingar, og þá sérstaklega sunnlenskar konur, eru að verða búnir að safna fyrir fíkniefnahundi fyrir lögregluna á Selfossi. Hún hefur hingað til orðið að stóla á lánshunda við rannsókn fíkniefnamála.

Síðast í gærkvöldi varð lögreglan að fá lánaðan hund frá Tollgæslunni í Reykjavík vegna fíkniefnamáls sem leiddi til þess að 120 grömm af hassi fundust í fórum tveggja manna sem voru á leið til Austfjarða. Þar af fann hundurinn rúmlega helminginn sem mennirnir höfðu kastað út úr bíl sinum rétt áður en lögreglumenn komu að.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir að þegar sé búið að festa kaup á hundi í Bretlandi og sé hann nú í þjálfun í Noregi. Gangi allt að óskum, og að lokinni sóttkví eftir komuna til landsins, verði hann genginn til liðs við lögregluna eftir um það bil tvo mánuði. Það muni án efa styrkja lögregluna í baráttunni við fíkniefnavandann.

Mennirnir tveir, sem teknir voru í gærkvöldi, eru grunaðir um að hafa ætlað hassið til sölu eystra en þeir hafa báðir gerst sekir um neyslu fíkniefna áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×