Innlent

Sýndu enga biðlund á slysstað

Ótrúleg óþolinmæði og dónaskapur vegfarenda mætti lögreglumönnun og þeim sem komu fyrstir á vettvang að banaslysi sem varð á Vesturlandsvegi í gær. Fólk ók jafnvel í gegnum vettvanginn áður en lögregla kom á staðinn.

Lokað var fyrir umferð á Vesturlandsvegi í um tvær klukkustundir eftir alvarlegt umferðarslys þar sem einn lést og annar slasaðist. Ekki tókst að beina umferð annað.

Aðstæður voru erfiðar og veðrið var vont. Margir þurftu að bíða á meðan reynt var að hlúa að og bjarga þeim slösuðu. Flak annars bílsins var á miðjum vegunum og því ekki hægt að beina umferð framhjá fyrr en búið var að fjarlægja það. Eins þurfti að safna rannsóknargögnum svo hægt verði að skýra orsakir slyssins. Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir vel mega skoða hvort lögregla geti komið upplýsingum betur til vegfarenda með einhverjum hætti. Brýnna sé þó að fólk dusti rykið af þolinmæðinni og sýni virðingu og kurteisi.

Og það voru fleiri en lögreglan sem urðu fyrir dónaskap viðstaddra, jafnvel frá þeim sem vel máttu sjá hversu alvarlegt slysið var. Dæmi voru um að fólk færi í gegnum slysavettvang á bílum sínum auk þess sem hnefar voru steyttir og bílflautur þandar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×