Innlent

Íslensk hönnun er jólagjöfin í ár

Jólagjöfin í ár er íslensk hönnun, að mati Rannsóknarseturs verslunarinnar. Efnahagslægðin setur sitt mark á valið, en undanfarin ár hafa GPS-tæki, lófatölvur og safapressur orðið fyrir valinu.

Að mati dómnefndar má ætla að úr jólapökkum landsmanna komi bæði harðir og mjúkir pakkar sem gætu meðal annars innihaldið íslenskar ullarvörur, skartgripi, nytjahluti, fjölskylduspil, tískufatnað og aðrar vörur með íslensku handbragði. Íslensk hönnun njóti vaxandi vinsælda og sé mjög í tekt við tíðarandann.

Rannsóknasetrið reiknar með að jólapakkarnir í ár verði ekki eins veglegir og í fyrra. Um 7,5 prósent samdráttur verði í jólaversluninni að raunvirði. Spáin er þó háð mikilli óvissu vegna efnahagsástandsins og minnkandi væntinga almennings. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að veltan í smásöluverslun verði um 59 milljarðar kr. en var í fyrra 54,6 milljarðar kr án virðisaukaskatts. Miklar verðhækkanir hafa orðið á árinu og því er spáð raunlækkun á veltu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×