Innlent

Eyjafjallajökull: Gosmökkurinn heldur hærri í dag en undanfarið

MYNd/Vilhelm

Gosvirknin í Eyjafjallajökli virðist nokkuð stöðug núna en mökkurinn er þó nokkuð hærri í dag en í gær. Í stöðuskýrslu frá Veðurstofunni segir að ekkert bendi til þess að gosinu sé að ljúka. Óróinn er nokkuð stöðugur og hefur verið svipaður síðustu sólarhringa og um klukkan fjögur í dag mældust fjórir skjálftar undir jöklinum. Skjálftarnir voru allir grunnir.

Gosmökkurinn er að jafnaði um 6 kílómetra hár samkvæmt veðurratsjá en fer hæst í um 9 kílómetra. „Mjög hægur vindur er ofan við gosstöðvarnar og óstöðugt loft fyrir sunnan land, en þetta hefur hvort tveggja áhrif á hæð öskuskýs," segir ennfremur.

Tilkynningar hafa verið um öskufall frá Berjanesi og fleiri stöðum undir Eyjafjöllum. Drangshlíðar- og Skarðshlíðarbæir tilkynntu um öskufall frá því klukkan sex í morgun, með smá hléi um hádegisbil og aftur um klukkan fjögur.

Frá Skógum er tilkynnt um öskufall frá miðnætti til morguns. Askan er nú aftur heldur fínni en hún var á tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×