Um 1100 manns bíða eftir flugi á Keflavíkurflugvelli, samkvæmt upplýsingum frá Friðþóri Eydal, upplýsingafulltrúa Keflavíkurflugvallar.
Tvær flugvélar fóru í loftið í morgun, en um var að ræða flug til Amsterdam og flug til Frankfurt. Flug Icelandair FI 450 milli Keflavíkur og Heathrow flugvallar London, sem fara átti í morgun hefur verið fellt niður og einnig siðdegisflug milli Keflavíkur og London. Morgunfluginu milli Keflavíkur og Osló, Kaupmannahafnar og Stokkhólms og sömuleiðis síðdegisflugi milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar hefur verið seinkað og verða næstu upplýsingar gefnar klukkan fjögur, samkvæmt tilkynningu frá Icelandair. Flug milli Keflavíkur og Amsterdam og Frankfurt er samkvæmt áætlun og sömuleiðis flug síðdegis til Boston og New York í Bandaríkjunum.
Um tvö þúsund farþegar eiga bókað flug með Icelandair á þeim flugum sem raskast hafa. Þeir eru staðsettir hér á landi og erlendis. Óljóst er hver þróun gossins verður og hvenær flug verður á ný með eðlilegum hætti. Farþegar eru hvattir til að fylgjast með fréttum, brottfarar- og komutímum á textavarpi og vefsvæðum, og á icelandair.is
Innlent