Fótbolti

Leonardo hættir með AC Milan eftir Juventus-leikinn á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leonardo, þjálfari AC Milan.
Leonardo, þjálfari AC Milan. Mynd/AFP
Leonardo, þjálfari AC Milan, hefur ákveðið í samráði við yfirmenn félagsins að hætta með ítalska liðið eftir tímabilið. Hann stjórnar því AC Milan liðinu í síðasta sinn í lokaumferðinni á morgun.

Leonardo tók við af Carlo Ancelotti þegar Ancelotti fór til Chelsea. Þó að hann hafi ekki unnið titil með liðinu á tímabilinu þá hefur hann tryggt félaginu sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili.

„Við erum komnir hingað til að tilkynna ykkur það að hér skilja leiðir hjá okkur. Við gerum það á rólegan og yfirvegaðan hátt eins og hefur verið okkar stíll hjá AC Milan," sagði Leonardo við blaðamenn.

„Þetta kemur kannski ekki mörgum á óvart en við vorum bara komnir á endastöð. Við höfum samt náð markmiðum okkar sem var að komast í Meistaradeildina," sagði Leonardo.

Það hefur verið mikið skrifað og slúðrað um framtíð Leonardo hjá AC Milan ekki síst eftir að liðið datt út fyrir Manchester United í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

AC Milan var í titilbaráttunni við nágranna sína í Inter Milan stærsta hluta tímabilsins en nýtti ekki tvö tækifæri í mars til að komast á toppinn og dróst síðan aftur úr bæði Inter og Roma á lokasprettinum.

„Ég vissi ekki hvernig það væri að vera þjálfari. Þetta var frábær reynsla en ég veit ekki hvort ég reyni þetta aftur, að minnsta kosti ekki næstu árin," sagði Leonardo.

Lokaleikur Leonardo með AC Milan verður á móti Juventus á morgun. Eftirmaður hans er ekki fundinn og Adriano Galliani, forseti AC Milan, sagði að menn þar á bæ ætli að taka sér góðan tíma í að finna hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×