Jóhanna Sigurðardóttir hafnar því alfarið að hún hafi haft efnisleg afskipti af vinnu reiknimeistaranefnd sem fjallaði um skuldavanda heimilanna. Marínó G. Njálsson, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, hélt því fram í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær að skýrslunni, sem birt var í fyrradag, hefði verið „ritstýrt að ofan". Jóhanna vísaði þessum fullyrðingum á bug í viðtali í sjónvarpsþættinum Ísland í dag á Stöð 2 í gærkvöld.
„Þessu hefur aldrei verið ritstýrt á einn eða annan hátt. Það eina sem ég lagði upp með var að við myndum ekki koma til þessa fundar með fyrirfram lausn og segja „svona á þetta að vera", heldur myndu allir leggja sitt af mörkum. Þess vegna vildi ég ekki fá neinar samsettar leiðir núna," sagði Jóhanna í þættinum. „Það eina sem ég hef gert var að reka á eftir Sigurði Snævarr að reyna að flýta þessari vinnu. Það eru einu afskipti mín af vinnu þessarar sérfræðinganefndar," bætti Jóhanna við.
Jóhanna hrósaði þátttöku Marinós i vinnunni. „Marino og Hagsmunasamtökin hafa lagt mjög gott til þessa mála. Það hefur verið mjög gott að hafa Marino þarna innanborðs," segir Jóhanna.
Smelltu á hnappinn „Horfa á myndskeið með frétt" hér að ofan til að sjá viðtalið við Jóhönnu.
Innlent