Innlent

Endurmeta þarf áætlun AGS verði Icesave fellt

Höskuldur Kári Schram skrifar
Endurmeta þarf efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland ef Icesave verður fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu að mati efnahags- og viðskiptaráðherra. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður haldin níunda apríl næstkomandi.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave verður haldin níunda apríl næstkomandi en Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra tilkynnti þetta að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Meirihluti landsmanna ætlar að samþykkja samkomulagið eða sex af hverjum tíu samkvæmt könnun fréttablaðsins og fréttastofu stöðvar tvö - sem birt var í dag - en tæplega þriðjungur kjósenda hefur hins vegar ekki gert upp sinn hug.

Mun ríkisstjórnin leggja allt undir verður fólk að kjósa um áframhaldandi vinstri stjórn þegar það er að kjósa um Icesave?

„Nei. Við höfum ekki nálgast þetta þannig. Alls ekki. Hvorki ríkisstjórnin né þingið líta svo á. Þetta er bara eins og það er. Það hafa engar kröfur verið uppi um slíkt og enginn sem mælir með því," svarar Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var rætt um afleiðingar þess ef samkomulagið verður fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að mati efnahags- og viðskiptráðherra mun það draga kreppuna á langinn. Hagvöxtur verður minni, atvinnuleysi meira og þá mun einnig hafa áhrif á samstarfið við alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

„Ef það væri nei sem kæmi út úr þjóðaratkvæðagreiðslunni þá þurfum við að endurmeta þá áætlun, væntanlega lengja í henni og kannski endurmeta hvað sé raunsætt að ná fram innan ramma þeirrar áætlunar," segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×