Skoðun

Tálsýnin – lífskjör á lánum

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Verðtryggingu lánsfjár er mjög kennt um skuldavanda fyrirtækja og heimila. Því er haldið fram að vandinn væri minni eða hverfandi ef lánin væru óverðtryggð eða í erlendum gjaldmiðli. Hvort tveggja eru miklar bábiljur.

Vandinn er skuldin sjálf en ekki form hennar. Skuldasúpan væri svipuð þótt hún væri óverðtryggð eða í evrum. Enginn lánar peninga með tapi og vaxtaákvæði allra lána eru þannig að lánveitandinn fær verðgildi lánsins til baka og einhverja vexti að auki. Óverðtryggð lán eru skuldurum dýrari en verðtryggð þar sem vextir eru að jafnaði hærri. Skuldarar eru því engu bættari að lánstíma loknum með þeim lánum.

Kosturinn við verðtrygginguna er sá að á hverjum gjalddaga þarf ekki að greiða alla vexti sem tilfallnir eru heldur dreifast greiðslurnar á allt lánstímabilið. Greiðslubyrðin verður því léttari en ella. Ókostur er að höfuðstóll skuldarinnar hækkar um frestuðu vextina. Óverðtryggð lán eru aðeins veitt með breytilegum vöxtum. Þar hækka vextir jafnskjótt og verðbólgan. Allir vextir af skuldinni greiðast við hvern gjalddaga og greiðslubyrðin verður mjög þung, einkum þegar verðbólgan vex, en höfuðstóllinn lækkar. Kostur óverðtryggðu lánanna fyrir efnahagsstjórn er að hækkandi greiðsla af lánum dregur úr einkaneyslu, minnkar þenslu og verðbólgan lækkar. Mögulegt er að hafa erlendan gjaldmiðil, t.d. evru. En þá þarf líka að undirgangast efnahagsstjórn sem gerir evruna að stöðugum gjaldmiðli. Það nær til hækkana launa, skatta, útgjalda ríkissjóðs, vaxta og útlánastefnu viðskiptabankanna. Það er ekki í boði að vera með íslenskan skuldakaupmátt í erlendu lánaumhverfi.

Allt er þetta val og hver kostur mögulegur en alltaf verður að endurgreiða lánin að fullu. Skynsamlegasta efnahagsstjórnin er líklegast sú að hafa verðtryggingu einungis í boði á íbúðalánum til langs tíma en banna verðtryggingu á öllum neyslulánum og bílalánum. Þá myndi efnahagsstjórn gegn þenslu virka nokkuð örugglega. Skuldavandinn er fyrst og fremst skuldin sjálf, innihaldið en ekki formið. Við vandanum verður aðeins brugðist með því að breyta hugarfarinu. Lífskjör á lánum eru falskur heimur, tálsýn, sem alltaf hrynur að lokum.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×