Í sláturtíðinni í haust fellur til á öllu landinu um hálf milljón gæra af íslenskum lömbum og eru um 90 prósent þeirra fluttar úr landi. Sjötta hvert skinn kemur frá sláturhúsi Norðlenska á Húsavík. Reynir Eiríksson, framleiðslustjóri Norðlenska, segir að prýðilega hafi gengið að selja skinnin og megnið sé selt. Hann segir verðið þó hafa lækkað vegna efnahagsþrenginga í Evrópu. Fyrir gæruna fást um níuhundruð krónur og má áætla að útflutningsverðmætið nemi um 400 milljónum króna.
Í frétt Stöðvar 2 mátti sjá pólska skinnkaupmenn skoða afurðirnar. Þeir eru frá fyrirtækinu Anet sem kaupir um fjórðung íslenskra lambaskinna og vinnur úr þeim í verksmiðju sinni í Suður-Póllandi. Aneta Bednarczuk, frá Anet-leðurvörum í Póllandi, segir þau hafa undanfarin 20 ár keypt íslenskar gærur og það eru sérkenni hennar sem heilla.
„Allt öðruvísi ull, mjög góðir eiginleikar, sérstaklega fyrir skreytingar. Ullin er mjög löng og mjúk. Fólk er mjög hrifið,“ segir Aneta í viðtali í fréttum Stöðvar 2. „Nýsjálenskar, ástralskar, pólskar og þýskar gærur eru allt öðruvísi, öðruvísi á litinn, önnur lengd og önnur mýkt, allt er öðruvísi.“

„Einmitt, en þetta eru góð viðskipti og ég er þakklát fyrir þau.“