Innlent

Framlag til Háskóla Íslands hækkar

Atli Ísleifsson skrifar
Vísir/Anton Brink
Framlag til Háskóla Íslands hækka um rúman hálfan milljarð samanborið við fjárlög síðasta árs.

Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að framlag til skólans hækki um 43,5 milljónir króna að frátöldum launa- og verðlagshækkunum sem nema 467,5 milljónum króna því til viðbótar. Alls nemur framlag til Háskóla Íslands því 12.962,3 milljónir króna árið 2015, samanborið við 12.451,3 milljónir árið 2014.

„Í fyrsta lagi er lagt til að framlag til skólans hækki um 302,4 m.kr. vegna breytinga á verði reikniflokka í reiknilíkani. Breytingarnar eru hluti af áformum um að styrkja rekstrargrunn skólans í áföngum á næstu árum með því að hækka framlag með hverjum nemanda.

Í öðru lagi er lagt til að framlag til skólans lækki um 152,8 m.kr. vegna aðhaldsaðgerða ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

Í þriðja lagi er lagt til að tímabundin fjárheimild vegna byggingar Húss Vigdísar Finnbogadóttur, 75 m.kr. árið 2014, falli niður. Með niðurfellingu fjárheimildarinnar lýkur ríkissjóður þriggja ára áætlun um framlög til hússins, en þau urðu samtals 200 m.kr., 50 m.kr. árið 2012, 75 m.kr. árið 2013 og 75 m.kr. árið 2014.

Í fjórða lagi er lagt til að 35 m.kr. tímabundin fjárheimild vegna tækjakaupa fyrir Jarðvísindastofnun falli niður.

Í fimmta lagi er áætlað að bæði ríkistekjur af skrásetningagjaldi og útgjöld sem þeim er ætlað að standa undir hækki um 15,1 m.kr. vegna 3.500 fleiri reiknaðra ársnemenda en lagðir eru til grundvallar kennsluframlagi. Breytingin hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Í sjötta og síðasta lagi er lagt til að framlag til skólans lækki um 11,2 m.kr. í samræmi við niðurstöðu útreikninga sem byggjast á fjölda ársnemenda og brautskráninga,“ segir í frumvarpinu.

Þá er einnig lagt til að framlög til Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum hækki um 14,3 milljónir króna að frátöldum launa- og verðlagshækkunum sem nema 7,9 milljónir króna. Er gert ráð fyrir að heildarframlagið verði 233,2 milljónir króna árið 2015.

Aðrir háskólar

Framlög til Háskólans á Akureyri hækka um 91,5 milljónir króna, úr 1.588 milljónum króna árið 2014 í 1.679,5 milljónir árið 2015.

Framlög til Háskólans í Reykjavík hækka um 129,4 milljónir króna, úr 2.203,6 milljónum króna árið 2014 í 2.333 milljónir árið 2015.

Framlög til Háskólans á Bifröst hækka um 13,7 milljónir króna, úr 284 milljónum króna árið 2014 í 297,6 milljónir árið 2015.

Tekið skal fram að tölurnar fyrir aðra háskóla eru ekki að frátöldum launa- og verðlagshækkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×