Innlent

Framlög til Umboðsmanns skuldara lækka um 42 prósent

Atli Ísleifsson skrifar
Lögð er til 326,2 milljóna króna lækkun á framlagi „vegna þróunar á rekstrarumfangi umboðsmanns í átt til jafnvægis“.
Lögð er til 326,2 milljóna króna lækkun á framlagi „vegna þróunar á rekstrarumfangi umboðsmanns í átt til jafnvægis“. Vísir/Vilhelm
Framlög ríkisins til embættis umboðsmanns skuldara lækka um 42 prósent samkvæmt fjármálafrumvarpi ársins 2015.

Heild­ar­fjárveit­ing til embættisins árið 2015 verður 496,4 millj­ón­ir króna, miðað við 855,6 millj­ón­ir króna árið 2014.

Í frumvarpinu segir að gert sé ráð fyrir að rekstrargjöld nemi um 496,4 milljónir króna á næsta ári sem jafngildi um 359,2 milljón króna lækkun að raungildi frá fjárlögum ársins 2014.

Í frumvarpinu segir að lækkunin skýrist af tveimur tilefnum. „Í fyrsta lagi er lögð til 33 m.kr. lækkun á tilfærsluframlagi vegna fjárhagsaðstoðar til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði við gjaldþrotameðferð sbr. lög sem tóku gildi 1. febrúar 2014. Í fjárlögum 2014 var gengið út frá þeirri forsendu að fjárhagsaðstoðin miðaðist við fjárhæð lágmarkstryggingar sem var 250 þús. kr. og að samþykktar yrðu 500 umsóknir um fjárhagsaðstoð á ársgrundvelli og heildarkostnaður næmi 125,0 m.kr.“

Umsóknir hafi hins vegar reynst færri en áætlað var og áætlaður kostnaður á árinu 2015 svari til 92,0 milljóna króna.

Í öðru lagi hafi verið lögð til 326,2 milljóna króna lækkun á framlagi vegna þróunar á rekstrarumfangi umboðsmanns í átt til jafnvægis. „Í samþykktri rekstraráætlun Umboðsmanns skuldara fyrir árin 2015-2017 er gert ráð fyrir að starfsemi stofnunarinnar muni á komandi árum dragast saman í takt við fækkun umsókna um greiðsluaðlögun og aðra þjónustu stofnunarinnar.“

Þannig er gert ráð fyrir að rekstrarútgjöld stofnunarinnar verði 709 milljónir króna árið 2014, 405 milljónir árið 2015, 349 milljónir árið 2016 og 299 milljónir 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×