Innlent

Hvað á nýja eldstöðin að heita?

Atli Ísleifsson skrifar
Ýmsar tillögur hafa komið upp varðandi mögulegt heiti á nýju eldstöðinni. Kristján Már Unnarsson, fréttamaður Stöðvar 2, varpaði fram ýmsum hugmyndum og spurði hvort nú ætti að kalla þetta Holuhrauns- eða Holuelda. Hann nefndi að mögulega væri hægt að tengja eldstöðina við landnámsmanninn Bárð þar sem hraunið væri runnið undan Bárðarbungu.

Þá kom gosið upp skammt undan Dyngjujökli og ekki langt frá Dyngjuvatni. „Gætu þetta verið Dyngjueldar og Dyngjuhraun? Hraunið er líka farið að flæða yfir svæði sem kallast Flæður. Gætu Flæðurnar orðið rót að nafni? Svo gæti kannski einhverjum dottið í hug hvort minnast mætti Apollo-geimfaranna sem þarna æfðu tunglferðir. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, sem fylgdi Neil Armstrong og félögum um Öskjusvæðið, gaf gili þarna nafnið Nautagil, - ekki vegna nautgripa, heldur vegna þess að þar voru astronaut. En þarna er líka Drekagil og Ármann Höskuldsson líkti gossprungunni í gær við glóandi Dreka. Kannski er þetta eldspúandi Drekinn. Það mætti kenna eldstöðina við hann."

Fréttastofa hvatti almenning til að senda inn sínar tillögur að nafni á eldstöðinni og eldunum og hafa fjölmargar tillögur borist.

Flestir leggja til Drekahraun og þá vilja einnig fjölmargir kalla það Bárðarhraun.

Meðal annarra tillagna má nefna Dómsdyngju, Bunguelda, Bárðarvoða, Drekaflæður, Holubungu, Skjálftahraun, Holuflæður, Míluelda, Drekahryggi, Flæðanda, Drekaborg, Fáfniselda, Urðardyngju, Þorleifsgíga, Drekakamb, Heljarhraun, Berggangshraun, Dyngjuhraun, Flæðahraun, Lekahraun, Gosa og Kristjánshraun.

Fréttastofa hvetur almenning til að halda áfram að senda tillögur á netfangið frettir@stod2.is.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×