Innlent

„Draga tennurnar úr Samkeppniseftirlitinu“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Árni Páll hefur áhyggjur af eftirlitinu
Árni Páll hefur áhyggjur af eftirlitinu Vísir / EE
„Ég sé ekki með þessu annað en að verið sé að draga tennurnar úr Samkeppniseftirlitinu,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í morgun í umræðum um fjárlagafrumvarpið. „Það eigi að vera þægur seppi sem hjálpi fyrirtækjum að brjóta ekki samkeppnislögin en sjálfstæðar fjárheimildir sem Samkeppniseftirlitið hefur til þess að hafa eftirlit með sannarlega samkeppnishamlandi hegðun, þær fjárveitingar eru dregnar saman.“

Í fjárlagafrumvarpinu eru gerðar nokkrar breytingar á fjárveitingum til stofnunarinnar. Fallið er frá 20 milljóna framlagi sem veitt var í fjárlögum 2013 vegna aukins álags í kjölfar hrunsins og 20 milljóna framlagi vegna verkefna í tengslum við eignarhald banka á fyrirtækjum í óskildum rekstri.

Hinsvegar er 19,5 milljónum bætt við til að auka leiðbeiningar til fyrirtækja. „Mikil eftirspurn er eftir því að Samkeppniseftirlitið leiðbeini fyrirtækjum og er talið nauðsynlegt að styrkja þennan þátt í starfi eftirlitsins, m.a. í því skyni að fækka brotum,“ segir í frumvarpinu.

Ragnheiður Elín segir ekkert til í því að verið sé að draga tennurnar úr SamkeppniseftirlitinuVísir / GVA
„Ég vil með mikilli gleði svara þessum athugasemdum,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, áður en hún hafnaði alveg ásökunum Árna Páls. „Það er í engu verið að draga tennurnar úr Samkeppniseftirlitinu, ekki með nokkrum hætti,“ sagði hún og bætti við að tímabundin fjárveiting hafi runnið út. „Við erum hinsvegar með þeim fjármunum, sem við erum að leggja sérstaklega í aukið leiðbeiningarstarf, að leggja til aðferð til að draga úr málafjölda Samkeppniseftirlitsins.“

Ragnheiður Elín ítrekaði að ekki væri verið að draga úr rannsóknarheimildum stofnunarinnar. „Samkeppniseftirlitið að sjálfsögðu heldur áfram þeim verkefnum sem það hefur verið að vinna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×