Innlent

Kótelettufélagið með glaðning á gosvaktina

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þeir sem standa gosvaktina á lögreglustöðinni á Húsavík fengu óvæntan glaðning þegar liðsmenn Kótelettufélags Íslands birtust þar með tilbúna kvöldmáltíð.

Eldgosið við rætur Dyngjujökuls hefur nú staðið í meira en þrjár vikur. Heima í héraði hefur gosvaktin þó staðið í fimm vikur, eða frá 18. ágúst, þegar aðgerðastjórn tók til starfa á lögreglustöðinni á Húsavík undir forystu Svavars Pálssonar sýslumanns.

Í þættinum Um land allt á Stöð 2 í kvöld var sýnt frá óvæntri heimsókn; hópi manna sem kom með kótelettur í raspi, kartöflur, grænar baunir, rauðkál og sultu, til að gleðja mannskapinn.

Birgir Þór Þórðarson, einn þeirra sem mættu með matarbakkana, útskýrði heimsóknina með því að mennirnir á gosvaktinni ættu þetta inni. Þeir væru að vinna þörf þjóðfélagsverkefni og þeir þyrftu að fá eitthvað að borða.

Þeir kynntu sig sem Kótelettufélag Íslands, - en rætur þess liggja í Reykjahverfi sunnan Húsavíkur, - og sögðu þeir að með þessu framtaki vildu þeir leggja sitt af mörkum.

Svavar Pálsson sýslumaður sagði samfélagið fyrir norðan virðast sýna störfum þeirra mikinn skilning. Þeir fengju allskonar heimsóknir, gott fólk kæmi með bakkelsi og nú væru ungir sveinar mættir frá Kótelettufélagi Íslands með fullbúna máltíð.

Í þættinum Um land allt á Stöð 2 í kvöld var meira sagt frá kótelettuveislunni og heilsað upp á fleira fólk fyrir norðan sem staðið hefur í eldlínu eldgossins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×