Innlent

Snýr við blaðinu á Litla-Hrauni

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Ágúst Csillag er rúmlega tvítugur, glaðlyndur ungur maður sem býr á Litla-Hrauni, 820 Eyrarbakka. Hann er ekki á leiðinni þaðan í náinni framtíð. En eftir að hamarinn sló 10 ár og gæsluvarðhald í Danmörku ákvað hann að nú væri ruglið að baki. Hann ætlar að snúa við blaðinu, byggja sig upp fyrir nýtt og heiðarlegt líf.

Brestir fá að fylgjast með og við byrjum á því að kynnast Ágústi og skyggnast milliliðalaust inn í tilveru hans á Hrauninu. Teymi frá Brestum fylgdi Ágústi eftir nánast hvert fótmál, frá því hann vaknaði upp úr sjö að morgni einn mánudag í september og þar til klefanum var læst klukkan tíu að kvöldi.

Sjónvarpsáhorfendur fá tækifæri til að kynnast lífinu á Litla-Hrauni frá fyrstu hendi. Markmiðið er að leita svara við því, hvort afplánun á Hrauninu sé betrun eða refsing.

Lífið á Hrauninu í 2. þætti Bresta er á dagskrá Stöðvar 2, mánudagskvöldið 27. október kl. 20:35. Í þáttunum rýna  forvitnir umsjónarmenn í bresti samfélagsins, gægjast undir yfirborðið og fylgjast með því sem fram fer fyrir luktum dyrum. Þeir fara með myndavélar þangað sem fréttamenn fara að jafnaði ekki og spjalla við fólk sem sjaldan sést í mynd.

Umsjónarmenn Bresta eru Lóa Pind Aldísardóttir, Kjartan Hreinn Njálsson og Þórhildur Þorkelsdóttir. Myndatökumaður er Björn Ófeigsson og Gaukur Úlfarsson leikstjóri.

Leiðrétting 27. október: Í þessari frétt stóð upprunalega að þetta væri sennilega í fyrsta sinn sem sýnt væri frá Litla-Hrauni í sjónvarpi á þennan hátt. Bent hefur verið á að þetta er ekki rétt. Fréttaskýringaþátturinn Kompás fékk einnig að taka upp í fangelsinu árið 2006.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×