Innlent

Segir nágranna hafa reynt að aka yfir sig á skurðgröfu

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar

Styrjöld geisar á tveimur nágrannabæjum í Flóa og lögreglan hefur ekki undan að sinna útköllum vegna málsins. Hjónin í Langholti 2 segja nágranna sinn í Langholti 1 stórhættulegan og saka hann um að hafa reynt að aka yfir þau oftar en einu sinni á skurðgröfu.



Stór beltagrafa var á hlaðinu í Langholti 2 í dag en hana höfðu hjónin fengið til að ryðja burt grjótvegg sem þau segja að hafi verið reistur í óleyfi á þeirra landi.



Deilt er um landspildu, eftir makaskipti á tveimur jörðum árið 1987. Bóndinn í Langholti 1 telur að landspildan hafi ekki verið með í makaskiptunum og gögn hafi horfið af skrifstofu sýslumannsins á Suðurlandi sem gætu tekið af öll tvímæli um það.



Hjónin í Langholti 2 segja öll gögn til staðar varðandi makaskiptin og að ábúandinn á nágrannabænum sé að ásælast land sem hann á ekki tilkall til. Lögreglan hefur ekki undan að sinna útköllum vegna málsins og kærurnar hlaðast upp. Hreggviður Hermannsson á Langholti 1 segir að lögreglan hafi komið 65 sinnum á síðustu 18 mánuðum, hann hafi fengið á sig 30 kærur og nágrannar hans hafi kallað hann öllum illum nöfnum og slegið til hans.



Ragnar Björgvinsson í Langholti 2, segir nágrannann hafa reynt að aka yfir þau á skurðgröfu oftar en einu sinni, hann hafi rifið tré upp með rótum og sprengt dekk svo fátt eitt sé talið, en Hreggviður vísar því á bug. Fríður Sólveig Hannesdóttir eiginkona hans hefur gert ófá heimamyndbönd um nágranna sinn og deilurnar.



Kim Andersen, nágranni fólksins sem á í deilunum, bar sig aumlega í viðtali við Stöð 2 og sagðist hræddur um sig og börnin sín.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×