Innlent

Þórey þakklát fyrir tímann í ráðuneytinu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Þórey lýsir yfir ánægju með ákvörðun Hönnu Birnu að halda áfram á þingi.
Þórey lýsir yfir ánægju með ákvörðun Hönnu Birnu að halda áfram á þingi. Vísir/Valli
Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttir, segir að tími sinn í ráðuneytinu hafi um margt verið erfiðan en að hún sé þakklát fyrir reynsluna. „Þegar ég lít tilbaka yfir þennan tíma kemur margt upp í hugann - en fyrst og fremst er ég þakklát fyrir þá reynslu sem ég hef öðlast þrátt fyrir að hún hafi um margt verið erfið,“ skrifar hún um starfslok sín á Facebook.

Þórey lét af störfum í gær á sama tíma og Hanna Birna lét af embætti. Ráðning pólitísks aðstoðarmanns ráðherra gildir til loka kjörtímabils eða þangað til ráðherrann lætur af embætti. Yfirleitt sitja ráðherrar út kjörtímabil en það er þó ekki raunin með Hönnu Birnu, eins og fjallað hefur verið um.

„Nú tekur við nýtt tímabil hjá mér - það er alltaf spennandi að takast á við kaflaskipti í lífinu en næst á dagskrá hjá mér er þó eingöngu það að njóta lífsins og hleypa gleðinni inn,“ skrifar hún. Þórey segir að ráðuneytið sé í góðum höndum hjá Ólöfu Nordal en hún lýsir einnig yfir ánægju með að Hanna Birna ætli að halda áfram sem þingmaður.

„Ég er ánægð með það að vinkona mín Hanna Birna Kristjánsdóttir ætli ekki að yfirgefa stjórnmálin og veit að hún mun koma tvíefld til baka eftir áramót,“ skrifar hún.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×