Skoðun

Framsókn ráðalaus í húsnæðismálum

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Hún er rýr, Framsóknarskýrslan sem kynnt var í vikunni um húsnæðismál. Þrátt fyrir fögur kosningafyrirheit um afnám verðtryggingarinnar blasir nú við að ekki verði farið í þá vegferð, nema að takmörkuðu leyti. Stuttum níu mánuðum eftir loforðaflauminn hefur Framsóknarflokkurinn nú rekið sig á það sem margoft hefur verið bent á af talsmönnum Samfylkingarinnar: Verðtryggingin er órjúfanlegur hluti af krónuhagkerfinu og verður ekki að fullu afnumin nema með upptöku annars gjaldmiðils.

Í skýrslunni eru engu að síður lagðar fram tillögur „í átt að fullu afnámi verðtryggingar“, sem meðal annars fela í sér að gera verðtryggð lán til lengri tíma en 25 ára óheimil. Það er vandséð hvernig það hjálpar húsnæðiskaupendum að takmarka möguleika þeirra á lánsfjármögnun íbúða, án þess að bjóða upp á eitthvað annað í staðinn. Þeir sem hafa ráð á að taka óverðtryggð lán í dag gera það – bannið breytir engu þar um.

Húsnæðisöryggi

Mun meira máli skiptir hvernig ríkisstjórnin ætlar að tryggja húsnæðisöryggi þeirra sem ekki ráða við þunga greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum eða af verðtryggðum lánum til einungis 25 ára. Í því máli skilar ríkisstjórnin svo til auðu. Vissulega er tæpt á hvaða mótvægisaðgerðum væri hægt að beita vegna styttingar lánstímans, en það er hvorki rætt hvað þurfi að gera að lágmarki svo hægt sé að hefja afnám verðtryggingarinnar, né greint frá því hvað slíkar aðgerðir myndu kosta ríkissjóð.

Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að Reykjavíkurborg taki forystu í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu. Snúa þarf frá ofuráherslunni á séreignarstefnuna og byggja upp traustan leigumarkað, sem verður valkostur fyrir alla – líka þá sem ráða ekki við himinháar greiðslur of óverðtryggðum lánum eða verðtryggðum lánum til 25 ára. Aðeins með beinni þátttöku borgarinnar í uppbyggingu leigufélaga sem starfa á almennum markaði tryggjum við skjóta uppbyggingu á leiguíbúðum. Reykjavíkurborg hefur nú þegar lagt fram metnaðarfullar áætlanir um uppbyggingu 2.500–3.000 íbúða og mikilvægt er að þær nái fram að ganga. Fyrir því vil ég beita mér í borgarstjórn Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×