Innlent

Enn meira aðhalds krafist í fjárlagafrumvarpi næsta árs

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Vísir
Fjárlög ársins 2015 gera ráð fyrir því að framlög til vegamála muni einungis aukast um einn milljarð króna frá fyrra ári. Þetta er þriðjungur af því sem gert hafði verið ráð fyrir í Samgönguáætlun. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í fjárlögum sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun kynna venju samkvæmt á blaðamannafundi í Salnum í Kópavogi í dag. Hann hefur hingað til lítið vilja gefa upp um einstaka liði fjárlagafrumvarpsins. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Heimildir Fréttablaðsins herma þar að auki að fjárheimildir nokkurra stofnana muni dragast saman. Þeirra á meðal eru umboðsmaður skuldara, Vinnumálastofnun og skattrannsóknarstjóri. Skorið verður niður í fjárheimildum til umboðsmanns skuldara um fjörutíu prósent. Hjá embættinu er gert ráð fyrir að fjórir starfsmenn á tímabundnum ráðningarsamningum þurfi að hætta störfum um áramót. Einnig mun umboðsmaður skuldara þurfa að huga að nýju húsnæði fyrir starfsemi sína. Við það bætast uppsagnir í síðasta mánuði. Gert er ráð fyrir að samdráttur hjá skattrannsóknarstjóra þýði að starfsmönnum stofnunarinnar fækki um fimm, en þeir eru núna 29.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að helstu atriði fjárlagafrumvarpsins hafi verið kynnt þingmönnum flokksins á fundi í Vestmannaeyjum.

„Ég er sátt við margt af því sem þar kemur fram,“ segir Ragnheiður og bendir á að fjárlagafrumvarpið sé í takt við margt af því sem sjálfstæðismenn hafi lagt áherslu á.

„Það er eru alltaf skiptar skoðanir um fjárlagafrumvarpið og ég hef enga trú á því að það verði neitt öðruvísi nú en áður,“ segir hún, aðspurð um hvort frumvarpið muni valda deilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×