Innlent

Kaldar kveðjur til atvinnulausra

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Elín Björg segir langtímaatvinnulaust fólk geta lent í vanda.
Elín Björg segir langtímaatvinnulaust fólk geta lent í vanda. fréttablaðið/Stefán
„Þetta eru mjög kaldar kveðjur til þeirra sem eru langtímaatvinnulausir,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, um fjárlagafrumvarpið 2015. Í því er kveðið á um að réttur fólks til að þiggja atvinnuleysisbætur verði styttur um hálft ár, en hann er nú þrjú ár.

Elín Björg bendir á að fólk geti jafnvel verið í þeirri stöðu að það þurfi að hætta á atvinnuleysisbótum strax núna um áramót. Hún bendir á að vandamálið hverfi ekki við þessar breytingar á frumvarpinu. „Ríkissjóður er ekki að eyða þessu vandamáli heldur færa greiðsluna til,“ segir Elín Björg og bætir við að ábyrgðinni sé varpað frá atvinnuleysistryggingasjóði til sveitarfélaga.

„Á sama tíma sýnist okkur að það sé ekki verið að greiða neitt framlag úr ríkissjóði til Virk starfsendurhæfingarsjóðs sem hefur það hlutverk meðal annars að endurhæfa fólk til starfa þegar það hefur orðið fyrir skerðingu á vinnugetu vegna slysa eða veikinda þannig að þetta bítur hvað í annað,“ segir Elín Björg. Að auki bendir hún á að sér virðist sem það sé heilmikill niðurskurður hjá Vinnumálastofnun sem hafi það hlutverk að sinna vinnumarkaðsúrræðum. „Þannig að heilt yfir sýnist mér þetta vera grafalvarlegt,“ segir Elín Björg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×