Innlent

Flytja inn vökva og framleiða MDMA

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar, segir MDMA vera neytt á stöðum þar sem lögregla sé lítið á ferli.
Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar, segir MDMA vera neytt á stöðum þar sem lögregla sé lítið á ferli.
Fíkniefnadeild lögreglunnar hefur undanfarið lagt hald á tæki og efni sem hafa verið notuð við framleiðslu eiturlyfsins MDMA. Helst er um að ræða sérstakar töflugerðarvélar sem notaðar eru til að setja MDMA-duft í töfluform.

„Þó að efnin séu að mestu flutt inn að utan höfum við orðið vör við nokkra tilraunastarfsemi á Íslandi. Það liggur ekki fyrir á hvaða stigi framleiðslan er, en til hennar þarf ákveðin efni sem smyglað er hingað til lands þar sem þau eru svo fullunnin,“ segir Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Tollverðir stoppuðu í sumar sendingu frá Hollandi sem innihélt 350 millilítra af svokölluðum MDMA-vökva, en hann er undirstaðan í framleiðslu MDMA sem er ýmist í töflu- eða kristallaformi.

Vökvanum var smyglað til Íslands í sjampóbrúsa en úr umræddu magni hefði verið hægt að framleiða 350 grömm af MDMA-dufti, sem hefði dugað í rúmlega þrjú þúsund töflur.

Í fréttaskýringaþættinum Brestum, sem hóf göngu sína á Stöð 2 í gær, var sögð saga tuttugu og eins árs gamallar konu sem lést úr of stórum skammti af MDMA, eða Mollý eins og það er jafnan kallað. Mikið hefur borið á efninu í íslensku skemmtanalífi undanfarið og þykir mörgum ungmennum lítið tiltökumál að neyta þess.

Þrátt fyrir að töluvert magn MDMA sé í umferð leggur lögreglan ekki hald á mikið magn samanborið við önnur fíkniefni. Aldís segir að skýringin á því kunni að vera að efnið sé vinsælt til neyslu í partíum og á skemmtistöðum, þar sem lögreglan hafi lítið verið með aðgerðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×