Handbolti

Wiencek og Kraus: Lífið heldur áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Leikmenn Þýskalands eftir leikinn í kvöld.
Leikmenn Þýskalands eftir leikinn í kvöld. Vísir/Eva Björk
Leikmenn þýska landsliðsins voru niðurlútir og stuttorðir þegar þeir ræddu við fjölmiðla eftir tapið gegn Katar í 8-liða úrslitum HM í handbolta.

„Það er erfitt að segja hvað fór úrskeðis svo stuttu eftir leikinn. Þetta var erfitt og því miður gekk ekki margt upp hjá okkur í kvöld,“ sagði Patrick Wiencek. „En lífið heldur áfram.“

Mimi Kraus sagði einnig að lífið haldi áfram þrátt fyrir tapið og að nú þurfi að einbeita sér að næsta leik, því hann skiptir máli.

„Nú förum við inn í klefa og greinum leikinn stuttlega. Við verðum að horfa fram á veginn. Við vitum að næstu leikir okkar skipta gríðarlega miklu máli upp á okkar þátttökurétt á Ólympíuleikum að gera og við þurfum því að vera með hausinn í lagi.“

Sjá einnig: Dagur: Vorum að elta allan leikinn

Kraus segir að það hafi verið erfitt að byrja leikinn jafn illa og þeir þýsku gerðu í kvöld. „Við vorum að elta allan leikinn, náðum aldrei að jafna stöðuna og koma okkur almennilega inn í leikinn.“

„Fyrri hálfleikur var ekki góður og það varð okkur að falli í dag. Það var ótrúlegt að sjá hversu illa við byrjuðum og það var ekki auðvelt að ætla að koma til baka eftir að hafa lent sex mörkum undir þegar stemningin í höllinni var eins og hún var.“


Tengdar fréttir

Pólverjar skelltu Króötum

Pólverjar tryggðu sér sæti í undanúrslitum HM í handbolta eftir spennutrylli gegn Króötum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×