Handbolti

Róbert: Vonum að Mikkel hitti ekki á draumaleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Róbert og Gunnar Berg Viktorsson, fyrrum landsliðsmaður, fagna sigrinum á Egyptalandi.
Róbert og Gunnar Berg Viktorsson, fyrrum landsliðsmaður, fagna sigrinum á Egyptalandi. Vísir/Eva Björk
Róbert Gunnarsson á von á skemmtilegum leik gegn Danmörku á HM í dag en Ísland mætir þá lærisveinum Guðmundar Guðmundssonar í 16-liða úrslitum HM í handbolta.

„Það er alltaf mjög gaman að spila gegn Danmörku. Leikir okkar hafa yfirleitt verið jafnir hjá okkur ef síðustu stórmót eru frátalin. En ég vona að við náum upp svipuðum leik og við gerðum á æfingamótinu í Danmörku fyrir HM,“ sagði Róbert en Ísland vann þann leik með eins marks mun. Var það fyrsti og eini tapleikur Dana undir stjórn Guðmundar til þessa.

„Við þurfum að einbeita okkur að okkar leik og ná upp svipaðri stemningu og gegn Egyptalandi. Ég hef aldrei prófað að spila á móti Gumma áður nema á þessu æfingamóti og það verður örugglega sérstakara fyrir hann en okkur.“

Danir eru með eitt besta lið heims og Róbert segir að liðið sé með ógnarsterka leikmenn í hverri stöðu.

„Markverðirnir eru frábærir og það þarf varla að tala um Mikkel [Hansen] og fleiri í þeirra liði. En þeir geta alveg tapað eins og önnur lið og við sýndum gegn Frökkum að við getum spilað góðan handbolta.“

„Við þurfum að ná svoleiðis leik á morgun og þá verður allt mögulegt. En þetta verður vissulega erfitt verkefni. Aðalatriðið fyrir okkur verður að leysa þeirra varnarleik og skjóta ekki í markvörðinn þeirra. Það gefur augaleið. Svo þurfum við að passa að þeir nái ekki að splundra okkur of mikið.“

„Allt eru þetta klisjusvör en við verðum bara að vona að Mikkel hitti ekki á einhvern draumaleik. Þá verður þetta allt léttara.“

Róbert segir að það yrði bónus ef Aron Pálmarsson gæti tekið þátt í leiknum en hann missti af leiknum gegn Egyptum í fyrradag vegna höfuðmeiðsla.

„Það er ekkert lið sem má við því að missa mann eins og hann, hvernig sem það fer. En við verðum að undirbúa okkur fyrir leikinn og best væri að gera það með það í huga að Aron verði ekki með.“

„Við kláruðum síðasta leik án hans og það gekk ágætlega. En það væri vissulega frábært að fá hann.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×