Handbolti

Íslendingar mæta Dönum í 16-liða úrslitum | Frakkar tryggðu sér efsta sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Danir fengu átta stig í C-riðli.
Danir fengu átta stig í C-riðli. vísir/getty
Danmörk verður mótherji Íslands í 16-liða úrslitum á HM í Katar. Þetta var ljóst eftir öruggan sigur Dana á Pólverjum, 31-27, í lokaleik þeirra í C-riðli.

Danir voru sterkari aðilinn í leiknum og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 16-12.

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar héldu áfram að hamra járnið meðan það var heitt og náðu mest sjö marka forskoti í seinni hálfleik.

Danir unnu að lokum fjögurra marka sigur, 31-27, og enda í öðru sæti C-riðils með átta stig.

Hans Lindberg var markahæstur í liði Danmerkur með sex mörk en Lasse Svan Hansen, Jesper Nøddesbo og Mikkel Hansen komu næstir með fjögur mörk.

Bræðurnir Michal og Bartosz Jurecki voru markahæstir hjá Pólverjum með fimm mörk hvor. Pólverjar mæta Svíum í 16-liða úrslitunum, en Svíþjóð laut í lægra haldi fyrir Frökkum í C-riðli í kvöld.

Guillaume Joli skoraði níu mörk úr jafnmörgum skotum í tveggja marka sigri Frakka, 27-25. Kentin Mahe kom næstur með fimm mörk.

Hornamaðurinn Jonas Källmann skoraði mest fyrir Svía eða átta mörk. Fredrik Petersen og Viktor Östlund komu næstir með fjögur mörk hvor.

Frakkland mætir Argentínu í 16-liða úrslitunum en Argentínumenn tryggðu sér farseðilinn þangað með góðum sigri á Rússum fyrr í dag.

Þá rústaði Tékkland Alsír í C-riðli, 20-36. Tékkar leiddu með 11 mörkum í hálfleik, 10-21.

Sigurinn dugði Tékkum þó skammt því Íslendingar unnu Egypta fyrr í dag. Tékkland fer í Forsetabikarinn ásamt Alsír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×