Handbolti

Leikur Þýskalands og Sádí-Arabíu í uppnámi?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Abdullah bin Abdulaziz á góðri stundu með George W. Bush.
Abdullah bin Abdulaziz á góðri stundu með George W. Bush.
Abdullah bin Abdulaziz, konungur Sádí-Arabíu, lést í gær níræður að aldri. Þetta gæti haft áhrif á leik handboltaliðs þjóðarinnar gegn Þýskalandi á HM í Katar á morgun.

Jarðarför Abdullah fer fram á morgun og var Bernhard Bauer, forseti þýska handknattleikssambandsins, spurður á blaðamannafundi þýska liðsins hvort að leikurinn væri mögulega í hættu.

„Við verðum að bíða og sjá til en við höfum ekkert heyrt frá IHF [Alþjóða handknattleikssambandinu],“ sagði Bauer á fundinum í morgun.

„Þetta hefur skiljanlega áhrif á leikmenn liðsins þegar þjóðarleiðtoginn fellur frá. Við erum hér í næsta landi við Sádí-Arabíu og alls óvíst hvað gerist.“

Dagur sagði að liðið myndi haga undirbúningi sínum eins og venjulega en leikmenn fá þó frí í dag til að safna kröftum. „Við verðum bara að bíða og sjá til hvað gerist en þangað til sinnum við okkar störfum eins og venjulega.“

Bauer hrósaði þýska landsliðinu mikið fyrir frammistöðuna á HM í Katar en liðið er í efsta sæti D-riðils með sjö stig af átta mögulegum. Liðinu dugar sigur gegn stigalausu liði Sádí-Arabíu til að tryggja sér efsta sæti riðilsins.

„Þetta er ótrúlega mikilvægt fyrir handboltann - að sýna við eigum heima í hópi bestu liða heims. Andstæðingar okkar hafa virðingu fyrir okkur og það hef ég sjálfur merkt hér úti. Þýskaland er komið aftur á meðal þeirra bestu og að fá hrós frá okkar andstæðingum er mikið lof,“ sagði Bauer.

„Við getum verið meira en ánæægð með frammistöðu okkar til þessa og þýska þjóðin bíður spennt eftir næstu leikjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×