Handbolti

Aron var „slappur“ fyrir leik | Grunur um heilahristing

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Katar skrifar
Aron Pálmarsson spilaði ekkert í seinni hálfleik.
Aron Pálmarsson spilaði ekkert í seinni hálfleik. vísir/eva björk
Aron Pálmarsson var slappur fyrir leik Íslands og Tékklands í kvöld, eftir því sem bæði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari og Örnólfur Valdimarsson læknir tjáðu Vísi eftir tapið gegn Tékklandi í kvöld.

Aron átti erfitt uppdráttar á þeim mínútum sem hann spilaði í fyrri hálfleik en á 24. mínútu fór hann út af eftir að hafa fengið þungt höfuðhögg. Í hálfleik ákvað Örnólfur að kippa honum úr leiknum.

„Ég lít alltaf yfir leikmannahópinn fyrir leik og ég sá á honum fyrir leik að hann var fölur og laslegur útlits,“ sagði Örnólfur við Vísi eftir leikinn í kvöld. „Hann var með hangandi haus.“

Aron varð fyrir líkamsárás á milli jóla og nýárs og kinnbeinsbrotnaði og hlaut slæman skurð fyrir ofan augnbrún. Örnólfur sagði þó að höggið hafi ekki komið á sama stað.

„Hann fékk högg undir hökuna og var ringlaður. Það var því bæði vegna slappleikans og fyrra höggsins sem hann fékk að ég ákvað að taka hann út af nú. Ég vildi sjá til þess að hann væri öruggur.“

„Já, það er grunur um heilahristing,“ segir Örnólfur við blaðamann. „Það verður fylgst með honum í kvöld og á morgun. Þá fyrst kemur framhaldið í ljós.“

Hann segir að Aron hafi verið einfaldlega slappur fyrir leikinn í kvöld en að honum hafi ekki þótt ástæða þá að taka hann úr hópnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×