Handbolti

Snorri Steinn: Helvíti lélegir þegar við slökum á

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Eva Björk
„Maður sveiflast á milli þess að vera sáttur með stigið og þess að hafa ekki unnið. Við vorum með boltann í lokasókninni en ég held að við þurfum að líta á það þannig að við séum á góðu róli á þessu móti,“ sagði Snorri Steinn en viðtalið má heyra í heild sinni hér fyrir ofan.

„Það er stígandi í liðinu og við erum komnir á skrið. Það er kannski kilsja en við þurfum að halda vel á spilunum og vera tilbúnir í hvern einasta leik. Þannig er það bara.“

„Hvað framhaldið varðar þá getum við byggt á þessum þremur stigum sem við höfum fengið og farið nokkuð jákvæðir inn í næstu leiki.“

Hann segist ánægður með sóknarleik íslenska liðsins og sinn þátt í honum. „Það hefur gengið mjög vel að finna flæðið í sókninni fyrir utan auðvitað fyrsta leikinn. Við spiluðum Alsíringa sundur og saman og vorum að koma okkur í færi gegn Frökkum trekk í trekk sem eru þekktir fyrir frábæra vörn.“

„Ég er mjög sáttur við síðustu tvo leiki og við fengum mörg mismunandi mörk úr mörgum stöðum gegn Frakklandi en við það er ég mjög sáttur.“

Strákarnir mæta Tékkum á HM í kvöld og en Tékkar eru særðir eftir að hafa tapað öllum þremur leikjum sínum í keppninni til þessa. „Ég held að það breyti litlu fyrir okkur. Við þurfum að spila af sama krafti og gegn Frökkum. Það hefur oft sýnt sig að ef við slökum á þá erum við helvíti lélegir.“

„Þetta er upp á líf og dauða fyrir þá og þó svo að það sé ef til vill ekki alveg þannig hjá okkur þá er mikilvægi leiksins öllum ljóst. Við viljum komast upp úr riðlinum sem fyrst og losna við lokaleik í riðlinum þar sem allt er undir.“

„Svo vil ég að við höldum áfram að bæta okkur. Það er oft betra þegar það er brekka upp á við og nú þurfum við að halda áfram að bæta okkar leik og komast upp úr riðlinum. Við þurfum að sjá til þess að það sé góð tilfinning í liðinu þegar úrslitakeppnin hefst.“


Tengdar fréttir

Strákarnir sendu skýr skilaboð til hinna liðanna

Strákarnir okkar náðu loksins að sýna sitt rétta andlit á HM í Katar en Ísland var hársbreidd frá því að landa sigri gegn Evrópumeisturum Frakka. "Skref, en bara eitt skref, í rétta átt,“ segir landsliðsþjálfarinn eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×