Handbolti

Sverre: Gott að vera svekktur eftir jafntefli við Frakka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Ég er eiginlega svolítið svekktur. Það er jákvætt að vera svekktur eftir að maður gerir jafntefli við Frakka, en á hinn bóginn þurfum við að taka það jákvæða úr þessu.“

Þetta sagði Sverre Jakobsson, varnarjaxlinn í liði Íslands, við Vísi, eftir 26-26 jafntefli gegn Frakklandi á HM í dag.

„Við erum hérna til að taka skref fram á við þegar líður á keppnina. Við gerðum það á móti Alsír og annað í dag og svona ætlum við að halda áfram.“

Sverre segist ekki hafa haft neinar áhyggjur af varnarleiknum fyrir leikinn í dag.

„Alls ekki. Við höfum fulla trú á hvorum öðrum hérna og þó menn eigi einn og einn leik þó ekki gangi sem skyldi þá er það ekki þannig að það hafi áhrif á næsta leik,“ sagði Sverre sem er orðinn nett þreyttur á dómgæslunni á mótinu.

„Mér fannst þetta í rauninni vera jafnt á báða bóga en ég á erfitt með að dæma þetta núna. Mér finnst þetta orðið strangt með þessar tvær mínútur. Það fór í taugarnar á mér. Það er greinilega komin einhver allt önnur lína sem hefði mátt láta vita af fyrir mót.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×