Ágúst Bjarni Garðarsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra í einn mánuð. Þetta staðfestir hann í samtali við fréttastofu. Ágúst Bjarni segir að ráðningin sé tímabundin, í einn mánuð, og að enn sé ekki búið að ganga formlega frá ráðningunni. Fréttanetið greindi fyrst frá.
Ágúst Bjarni er oddviti Framsóknarflokksins í Hafnarfirði auk þess að vera formaður Sambands ungra framsóknarmanna. Hann er 27 ára gamall stjórnmálafræðingur sem, samkvæmt tilkynningu á vef SUF frá því í febrúar, stundar MPM-nám við Háskólann í Reykjavík.
Fyrir er Gunnar Bragi með einn aðstoðarmann, Sunnu Gunnars Marteinsdóttur. Þar til nýverið var Margrét Gísladóttir einnig aðstoðarmaður hans en hún lét af störfum í janúar eftir að hafa verið í tímabundnum verkefnum fyrir forsætisráðuneytið. Gunnar Bragi er því aftur kominn með tvo aðstoðarmenn.
