„Meirihlutinn ræður,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnhagsráðherra, í umræðum um fundarstjórn forseta á Alþingi í dag. Frá því að þingfundur hófst klukkan 15.00 hefur ekki annað verið rætt en ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið, sem tekin var án samráðs við þingið.
Stjórnarandstöðuþingmenn hafa lýst yfir furðu sinni og óánægju með vinnubrögð stjórnarinnar. Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að stjórnskipunarkrísa væri í landinu eftir ákvörðunina. „Hér er ekkert annað á ferðinni en meiri háttar stjórnskipunarkrísa í landinu,“ sagði hann.
Róbert sagði að það væri grafalvarlegt að ríkisstjórnin líti svo á að hún geti einhliða afnumið ályktun þingsins frá 2009 um að sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu en bæði þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar hafa sagt hana enn í gildi. „Það er auðvitað ekkert annað en meiri háttar stjórnskipunarkrísa.“
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ræða þyrfti stöðu þingsins. „Staða þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu er í algjöru uppnámi,“ sagði hún. „Það er mikilvægt að við ræðum hér stöðu þingsins og að hún sé skýrð.“
Bað hún um að forseti þingsins sæi til þess að ríkisstjórnin myndi sitja öll undir umræðunum.
Innlent