Innlent

UNICEF óttast um afdrif barna í Nepal

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tugir þúsunda eru á vergangi í Nepal vegna skjálftans, þar á meðal fjöldi barna.
Tugir þúsunda eru á vergangi í Nepal vegna skjálftans, þar á meðal fjöldi barna. Vísir/Getty
UNICEF hefur hafið neyðaraðgerðir vegna jarðskjálftans sem reið yfir í Nepal í morgun. Samtökin vinna nú með stjórnvöldum og samstarfsaðilum að því að mæta brýnustu þörfum barna á sviði vatns, hreinlætis, heilsugæslu næringar og verndar.

Helstu hjálpargögn til þessara fyrstu aðgerða eru tiltækar á staðnum og gera UNICEF kleift að bregðast svo skjótt við.

„UNICEF hefur starfað á vettvangi í Nepal í meira en 50 ár og mun starfa áfram ötullega í þágu nepalskra barna andspænis þessari áskorun. Mikilvægt er að hafa hraðar hendur til að veita börnum og fjölskyldum þeirra lífsnauðsynlega aðstoð, skjól og vernd í kjölfar þessara hamfara,” segir Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Um helmingur íbúa Nepal eru börn og er það nú forgangsverkefni UNICEF að tryggja að þeim berist öll sú aðstoð sem nauðsynleg er í kjölfar jarðskjálftans.

UNICEF á Íslandi biðlar til almennings að vera til staðar fyrir börn sem nú eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans. Hægt er að styrkja neyðarsöfnun UNICEF fyrir Nepal með því að senda smsið UNICEF í númerið 1900 og gefa 1500 krónur til neyðaraðgerða vegna jarðskjálftans.


Tengdar fréttir

Tugir þúsunda á vergangi í Nepal

Yfirvöld í Nepal hafa staðfest að 1500 manns hafi farist í skjálftanum en óttast er að tala látinna eigi enn eftir að hækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×