Handbolti

Gæti endað illa að þurfa að mæta Egyptum í úrslitaleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Gunnar Magnússon, aðstoðarþjálfari íslenska liðsins.
Gunnar Magnússon, aðstoðarþjálfari íslenska liðsins. vísir/Eva Björk
Ísland mætir Tékklandi á HM í handbolta í kvöld. Leikurinn hefur mikla þýðingu fyrir bæði lið en sér í lagi tékkneska liðið sem er úr leik með tapi.

Strákarnir eru á góðu róli eftir jafntefli gegn Frökkum í gær og tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar og halda möguleikum sínum opnum á öðru eða þriðja sæti riðilsins.

Tékkar hafa ekki verið sannfærandi til þessa í keppninni en eins og Gunnar Magnússon, aðstoðarþjálfari landsliðsins, segir hefur liðið endurheimt stórskyttuna Filip Jicha, leikmann Kiel, úr veikindum.

„Nú verður hann ferskur þegar Tékkar eiga fjórða leik og það veit ekki á gott fyrir okkur,“ sagði Gunnar við Fréttablaðið í gær.

„Engu að síður hafa Tékkar ekki spilað neitt svakalega vel í keppninni og við mætum fullir sjálfstrausts til leiks. Við verðum líka að athuga að þetta er úrslitaleikur fyrir okkur því ekki viljum við mæta Egyptalandi í síðustu umferð þar sem allt er undir. Það gæti endað illa.“

Gunnar segir að Tékkar leiti mikið í skyttur sínar í sóknarleiknum og að það þurfi að stöðva, án þess þó að vera of berskjaldaðir fyrir línuspili Tékkanna. Frakkar leituðu grimmt inn á sinn línumann gegn Íslandi í fyrradag.

„Tékkar hafa ekki verið að leita mikið inn á línuna en við megum ekki gleyma því að önnur lið leita að veikleikum okkar, rétt eins og við gerum í okkar undirbúningi. Við þurfum að finna jafnvægi í varnarleiknum en fyrst og fremst að einbeita okkur að því að spila vel sjálfir á alla kanta og mæta með fulla einbeitingu. Leikmenn þurfa að átta sig á því að Frakkaleikurinn er búinn og að nú taki annar mikilvægur leikur við,“ segir Gunnar.- esá


Tengdar fréttir

Aron Kristjáns: Við vorum að spila betur saman

Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins, var eins og leikmennirnir ánægður með leikinn gegn Frökkum. Það er oft erfitt að sjá á þjálfaranum hvort hann er kátur eða glaður því hann heldur ætíð ró sinni hvernig sem á gengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×