
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sýndu útreikningar fyrirtækisins fram á að fjárfestingin væri mjög arðbær. Í nýju frumvarpi ráðherra um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi segir hins vegar í 12. grein að fyrirtæki verði að sýna fram á að án ívilnana verði fjárfestingin ekki arðbær. „Þetta atriði er auðvitað fáránlegt og það að krefjast þess í rauninni að eitthvert verkefni sé óarðbært til að fá styrk er skringileg forsenda. Atvinnuveganefnd hefur fett fingur út í þetta orðalag og það eru allar líkur á því að orðalagið muni breytast í meðförum nefndarinnar,“ segir Björt.

Forsvarsmenn Matorku og Ragnheiður Elín mættu á fund atvinnuveganefndar þar sem ívilnanasamningur ríkisins við Matorku var til umræðu. Stjórnarandstöðuþingmenn gagnrýndu að útreikningar Matorku hafi verið lagðir fyrir stjórnvöld án þess að þeir hefðu verið skoðaðir nægilega vel. „Fundurinn var gagnlegur og upplýsandi en ég fór fram á að forsvarsmenn Íslandsstofu myndu koma fyrir nefndina og útskýra þætti málsins sem enn eru mjög óljósir,“ segir Kristján Möller. „Þetta mál hefur vakið spurningar um hvernig lagaramma við viljum hafa. Viljum við ívilna til fyrirtækja sem skekkja markaðinn sem fyrir er mjög viðkvæmur?“