Árni Einarsson líffræðingur segir þá lengi hafa haldið til á einu leiði í garðinum. „Þeir hafa haldið til í garðinum áratugum saman, leiðið umrædda var skreytt hörpudiskum og bobbarnir fundust undir þeim. Þeir eru enn í þeim hluta garðsins þar sem leiðið er.“

Heimir Janusarson, umsjónarmaður garðsins, segir hann einstakan að mörgu leyti en gróður og dýralíf veki furðu margra gesta garðsins.
„Enginn vissi hvort tré myndu þrífast á Íslandi eða hvað þau yrðu stór þegar þau voru gróðursett í garðinum. Gróðurfar í garðinum er mjög fjölbreytt og talið er að í honum séu hundruð tegunda af jurtum og trjám. Þar vaxa meðal annars falleg hlyntré sem breskir gestir í garðinum falla í stafi yfir, greni, björk og reynir og sveppir sem finnast hvergi annars staðar á Íslandi og mosi sem er á válista Evrópuráðs.“
Eiginkona Heimis, Sólveig Ólafsdóttir, sagnfræðingur og áhugakona um garðyrkju, segir tilraunastarfsemina sem geri garðinn svo fjölskrúðugan því miður að dala.
„Hér hafa verið gerðar skemmtilegar tilraunir til ræktunar og þær tískubylgjur sem hafa verið síðustu áratugi má allar greina í garðinum. En nú er þetta því miður svolítið að víkja fyrir öðrum hefðum.“
Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur staðfestir að í garðinum sé að finna sveppagróður sem finnist hvergi annars staðar á landinu. Frægastur fágætra sveppa sé svokallaður fýluböllur sem ber víst nafn með rentu.

Guðríður Gyða segir garðinn í miklu dálæti hjá sér, hann sé sérstök gróðurvin þar sem nýtt og fágætt líf kvikni.
„Í garðinum eru gömul tré sem hafa ef til vill verið flutt að utan á sínum tíma. Þetta er gróðurvin í borgarlandinu með fjölbreyttum trjágróðri. Ég fann til dæmis nýja margfætlu í garðinum, náfætlu.“