Skoðun

Lýðræði eða lýðskrum?

Þorvaldur Þorvaldsson skrifar
Það var aumkunarvert að horfa nýverið upp á Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, mæla fyrir tillögu um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Enn fremur að hún skyldi segja að þar sé um að ræða prófstein á lýðræðið í landinu.

Þar talar Katrín annað hvort gegn betri vitund eða hún skilur ekki muninn á lýðræði og lýðskrumi. Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki endilega ávísun á lýðræði. Það ræðst af ýmsu. Það er t.d. frumskilyrði að kostirnir sem valið er um séu skýrir og báðir eða allir framkvæmanlegir. Þannig hlyti eina lýðræðislega atkvæðagreiðslan um þetta mál að snúast um viljann til að ganga í ESB eða ekki.

Þá þyrfti líka að liggja skýrt fyrir að fyrirvörum sem fylgdu þingsályktuninni um aðildarumsókn yrði vikið til hliðar og forræði þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni yrði gefið upp á bátinn. Sama á við um það skilyrði að setja skorður við innflutningi dýra- og landbúnaðarafurða til að koma í veg fyrir sjúkdóma og tryggja fæðuöryggi.

Þessi skilyrði komu fram bæði í greinargerð og nefndaráliti sem vísað er til í tillögunni sjálfri. Seint á árinu 2011 sigldu viðræðurnar við ESB í strand þar sem ESB neitaði að opna viðræður um sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann fyrr en fyrir lægi tímasett áætlum um aðlögun Íslands að stefnu ESB í málaflokkunum.

Það er tímabært að Katrín Jakobsdóttir og aðrir sem ákaft hafa reynt að blekkja þjóðina undanfarin misseri svari því hvort þeir vilja setja auðlindir Íslands á opinn evrópskan markað, koma á viðskiptahöftum við lönd utan ESB og lögfesta markaðsvæðingu allra innviða samfélagsins. Auk þess hangir margt fleira á spýtunni sem sumt kemur ekki í ljós fyrr en eftir mörg ár.

Ætlar Katrín og fylgjendur hennar kannski að sæta lagi til smokra sér fram hjá þeim fyrirvörum sem Alþingi setti við aðildarumsóknina svo lítið beri á, eða er meiningin að fyrirhugaðar viðræður verði eins konar störukeppni við ESB? Niðurstaða hennar yrði fyrirséð þar sem ESB hefur á að skipa her manna með langa reynslu af að stara.

Spurningin snýst um hvort við viljum ganga í ESB með því sem því fylgir en ekki um formsatriði eða óánægju með ríkisstjórnina. Með inngöngu í ESB yrðum við lokuð inni í ríkjasambandi sem mótaði allt líf okkar án þess að við gætum haft áhrif á hvert það þróast og það dylst fáum núorðið að það þróast á versta veg. Það er því kaldhæðnislegt að þeir sem þykjast tala fyrir lýðræði í þessu máli eru í raun að reyna að hjúpa það gerningaþoku og grafa þannig undan lýðræðinu. Ég krefst þess að minn lýðræðislegi réttur snúist um annað og meira en að greiða atkvæði um að afnema lýðræðið.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×