Menn sem voru að störfum í þjóðgarðinum bentu blaðamanni og ljósmyndara Fréttablaðsins á að sumir ferðamenn gengju örna sinna aftan við Þingvallakirkju og þjóðargrafreitinn þar sem skáldin Jónas Hallgrímsson og Einar Benediktsson hvíla. Það kæmi í hlut starfsmanna þjóðgarðsins á haustin að hreinsa þar upp mannaskít og salernispappír. Og það var einmitt það sem kom á daginn í rjóðrinu við þjóðargrafreitinn; salernispappír og mannaskítur.
„Þeim sem ekki fóru á klósettið uppi á Haki er kannski orðið mál þarna niðri,“ segir Helgi Jón Davíðsson.

„Þetta er vanhelgun og vanvirðing við allt og alla. Svona hagar siðmenntað fólk sér ekki,“ segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra og formaður Þingvallanefndar, um áðurnefnda stöðu við þjóðargrafreitinn.
Sigrún segir salerni skammt frá Þingvallakirkju, bæði við gjána Silfru og á Valhallarreitnum en að ef til vill megi bæta merkingar í þjóðgarðinum. Hún gerir athugasemdir við kröfur ferðaþjónustufyrirtækja á hendur stjórnvöldum.
„Það er ekki hægt að gera endalausar kröfur um að ríki eða samfélag borgi fyrir það sem þau hirða svo ágóðann af,“ segir umhverfisráðherra.

Gríðarleg fjölgun ferðamanna undanfarin ár heldur áfram á þessu ári. Sigrún segir að haldi aukningin áfram, þá hafi menn varla undan. Hún tekur þó undir að á Þingvöllum sé staðan betri en víðast annars staðar. Þar hafi komið á bilinu 600 til 700 þúsund gestir í fyrra og í stefni að það aukist um 30 prósent.
„Það er svo margt nýtt sem þarf að hugsa um og ég held að við séum öll af vilja gerð en ég held að ekkert land hafi staðið frammi fyrir annarri eins aukningu á svo skömmum tíma,“ segir umhverfisráðherra.

„Það vantar einhverja siðmenningu. Þetta er að verða stórt og alvarlegt vandamál og ég sé ekki aðra leið en að setja um þetta lög og reglugerðir,“ segir ráðherra.

„Það eru allar sveitarstjórnir á landinu alveg steinsofandi yfir þessu,“ segir leiðsögumaðurinn og bendir á að ferðamenn skilji hér eftir mikla fjármuni.
„En þeir eru alls ekki notaðir í uppbyggingu fyrir greinina. Þetta er orðin stærsta atvinnugrein þjóðarinnar og það er enginn sem sinnir þessari grunnþörf.“

„Það vantar eitthvað í fólkið sjálft að geta lagst svo lágt eins og í þessu dæmi. Þarna er stutt til beggja handa í salerni,“ segir Sigrún varðandi það að fólk gangi örna sinna aftan við Þingvallabæinn.
Helgi Jón undirstrikar að ferðamenn sé langflestir viljugir að borga fyrir að komast á salerni – þeir vilji bara að þjónustan sé fyrir hendi og skilji ekki af hverju svo sé ekki „Þeir bara hrista hausinn.“
Uppfært klukkan 10:15
Ummæli við þessa frétt eyddust þar sem uppfæra þurfti fyrirsögn. Beðist er velvirðingar á þessu.