Handbolti

Strákarnir hans Patreks töpuðu í Rúmeníu en náðu inn dýrmætu marki í lokin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrekur Jóhannesson þjálfar landslið Austurríkis.
Patrekur Jóhannesson þjálfar landslið Austurríkis. Vísir/Getty
Austurríska handboltalandsliðið tapaði í kvöld með þriggja marka mun á móti Rúmenum, 32-29, í undankeppni HM 2017 en þjóðirnar eru í keppni um laust sæti í umspilinu í sumar.

Patrekur Jóhannesson var búinn að stýra austurríska landsliðinu til sigurs í fjórum fyrstu leikjum sínum og þar á meðal var 27-24 sigur í fyrri leiknum gegn Rúmenum.

Rúmenar unnu líka með þremur mörkum og því standa liðin jöfn innbyrðis fyrir lokaumferð riðilsins. Sigur Rúmena skilaði þeim þó sex mörkum í betri markatölu og það þurfa Austurríkismenn að vinna upp í lokaleik sínum á móti Finnum. Heildarmarkatala mun nú ráða endi liðin jöfn að stigum sem er mjög líklegt úr þessu.

Thomas Kandolf minnkaði muninn í þrjú mörk 22 sekúndum fyrir leikslok og það gæti verið afar dýrmætt mark fyrir austurríska liðið. Hefði Kandolf ekki skorað þá hefðu Rúmenar alltaf verið ofar á innbyrðisárangri ef liðin enda með jafnmörg stig.

Rúmenska liðið náði mest sex marka forystu í seinni hálfleiknum en Austurríkismenn gáfust ekki upp og tókst að minnka muninn í þrjú mörk fyrir leikslok. Nikola Bilyk skoraði 9 mörk fyrir Austurríki og Raul Santos var með 6 mörk úr 6 skotum.

Það er bara ein umferð eftir í riðlinum og þar þurfa Austurríkismenn að vinna Finna stórt á heimavelli og treysta á það að Rúmenar vinni ekki stórt á Ítalíu. Rúmenar unnu fyrri leikinn sinn gegn Ítölum með þrettán marka mun þannig að sigurinn á Finnum þarf ef til vill að vera mjög stór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×