Rúta með þrjátíu til fjörutíu ferðamenn innanborðs fór útaf veginum neðan við skíðaskálabrekkurnar í Hveradölunum í grennd við Hellisheiðarvirkjun. Rútan rann útaf veginum í mikilli hálku sem er á Hellisheiði og sömuleiðis á Þingvallarvegi þar sem alvarlegt rútuslys varð upp úr klukkan 10:15.
Engin slys urðu á fólki og voru farþegar í rútunni teknir upp í aðra rútu sem send var á vettvang.
Maren Finnsdóttir, leiðsögumaður sem starfar í Hellisheiðarvirkjun, segir algjöra hríð hafa verið á Hellisheiðinni í morgun. Umræða hafi skapast meðal leiðsögumanna um það að rútur séu almennt margar hverjar illa búnar þegar kemur að dekkjum, fæstar komnar á nagladekk.
Maren segist sjálf hafa rétt náð beygjunni af Suðurlandsvegi inn á afleggjarann að virkjuninni í morgun.

