Handbolti

Arnór Atlason verður líklega ekki með á HM í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Vísir/EPA
Íslenska handboltalandsliðið verður væntanlega án eins síns reyndasta leikmanns á heimsmeistaramótinu í Frakklandi sem fer fram í byrjun næsta árs.

Landsliðsþjálfarinn Geir Sveinsson staðfesti í viðtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar tvö að útlitið með Arnór væri ekki gott.

Arnór Atlason hefur verið að glíma við langvinn meiðsli í baki frá því að hann kom til danska liðsins Álaborgar en hann kom til liðsins frá franska liðinu Saint-Raphaël í sumar.

Læknateymi íslenska landsliðsins er að fá myndir af landsliðsmanninum í hendur sem verða greindar í framhaldinu. Niðurstaða ætti síðan að liggja fyrir í síðasta lagi á morgun.

Áverkar á lífbeini munu verða að angra Arnór Atlason og það eru alltaf langvinn og erfið meiðsli.

Arnór gæti orðið enn einn leikmaðurinn úr silfurliðinu á ÓL í Peking 2008 sem hefur helst úr lestinni á síðustu mánuðum en í október ákváðu bæði Snorri Steinn Guðjónson og Alexander Petersson að setja landsliðsskóna upp á hillu.

Arnór Atlason var með íslenska landsliðinu í leikjunum í undankeppni EM í nóvemberbyrjun. Hann spilaði þá landsleiki númer 183 og 184 á ferlinum. Arnór skoraði sitt 400. landsliðsmark á árinu 2016.

Arnór hefur farið með íslenska landsliðinu á ellefu stórmót. Hann var ekki með á HM á Spáni 2013 en hafði annars verið með á öllum stórmótum liðsins frá og með Ólympíuleikunum í Peking 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×