Uppfært klukkan 12:02: Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að 19 farþegar hafi verið í rútunni sem valt í morgun en engan sakaði.
Veður hefur versnað töluvert á þessu svæði efir því sem liðið hefur á morguninn og akstursskilyrði eru slæm, hálka, snjókoma og hvassviðri. Landsbjörg áréttar því að ekkert ferðaveður er á svæðinu og er spáð vonskuveðri á Austur-og Norðausturlandi í dag.
Klukkan 10:39 fékk lögreglan svo tilkynningu um að rúta hafi runnið út af vegi í hálku við Freysnes í Öræfum. Björgunarsveitin Kári fór á vettvang og aðstoðaði fólk þar en engin slys eru á fólki og er unnið að því að draga bílinn upp á veg aftur.
Uppfært klukkan 11:40: Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg fóru alls fjórar rútur út af Suðurlandsvegi við Pétursey í morgun. Ein rútan valt en engin meiðsl urðu á fólki. Ekki liggur fyrir hversu margir voru alls í rútunum.
Björgunarsveitir vinna nú að því að koma þremur rútum aftur upp á veg sem verða notaðar til þess að ferja farþega í skjól.
Rúta fór út af á Suðurlandsvegi, skammt frá Vík í Mýrdal, rétt fyrir klukkan 11 í morgun.
Samkvæmt upplýsingum frá Oddi Árnasyni, yfirlögregluþjóni á Suðurlandi, eru 19 manns í rútunni en samkvæmt tilkynningu sem lögreglunni barst um útafaksturinn eru engin slys á fólki.
Viðbragðsaðilar eru nú á leið á staðinn en auk sjúkraflutningamanna og lögreglu var björgunarsveitin Víkverji í Vík kölluð út.
