Handbolti

Gensheimer kominn til Frakklands: Það hefði pabbi minn viljað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Uwe Gensheimer með þýska landsliðinu.
Uwe Gensheimer með þýska landsliðinu. Vísir/Getty
Uwe Gensheimer, hornamaðurinn öflugi og fyrirliði þýska landsliðsins í handbolta, er kominn til Frakklands og í landsliðshóp Þjóðverja á nýjan leik.

Gensheimer yfirgaf herbúðir landsliðsins í miðjum undirbúningi fyrir HM vegna óvænts fráfalls föður síns.

„Ég er nú á leiðinni og verð með á heimsmeistaramótinu. Það er það sem faðir minn hefði kosið,“ var haft eftir Gensheimer í yfirlýsingu þýska sambandsins í gær.

„Ég bið um skilning og óska eftir því að ég þurfi ekki að tjá mig meira um þetta á meðan HM stendur,“ sagði hann enn fremur.

Sjá einnig: Fyrirliðinn missti föður sinn: Uwe kemur til baka þegar hann treystir sér

Ljóst er að Gensheimer mun skjótast aftur yfir til Þýskalands á meðan mótinu stendur en Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska liðsins, sagði að líðan Gensheimer væri öllu öðru mikilvægara.

„Við verðum að taka vel á móti honum og sjá til þess að honum líði vel,“ sagði Dagur sem mun ekki hræðast að nota hann í leikjum.

„Við þurfum á honum að halda, það er ekki nokkur spurning,“ sagði Dagur en annar hornamaður, Rune Dahmke, hefur verið að glíma við flensu síðustu daga. Gensheimer og Dahmke spila báðir í vinstra horninu.

Þæýskaland mætir í dag Ungverjalandi í fyrsta leik sínum á HM en hann hefst klukkan 16.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×