Fótbolti

Gerði fyndnu styttuna af Ronaldo og er mjög ánægður með útkomuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo var kátur með styttuna.
Cristiano Ronaldo var kátur með styttuna. Vísir/EPA

Bronsstyttan af Cristiano Ronaldo fyrir utan flugvöllinn á Madeira hefur verið skotspónn á samfélagsmiðlum síðan að hún var frumsýnd í gær.

Flugvöllurinn á Madeira hefur verið nefndur eftir fjórföldum besta knattspyrnumanni heims og heitir nú Aeroporto Cristiano Ronaldo. Flugvöllurinn er í Funchal á Madeira-eyju.

Sá sem gerði styttuna umdeildu, er frá eyjunni Madeira eins og Cristiano Ronaldo, en listamaðurinn heitir Emanuel Santos.

Sjá einnig: Styttan líkari Njáli Quinn en Ronaldo

Emanuel Santos fékk það verkefni að gera andlitsstyttu af Cristiano Ronaldo og útkoman þótti mörgum brosleg. Samfélagsmiðlar voru fullir af háði og spotti og þó nokkrir bentu á það að styttan væri líkari Njáli Quinn en Cristiano Ronaldo.

„Það er ómögulegt að gera alla Grikki og alla Trója ánægða. Jesús tókst ekki einu sinni að gera alla ánægða,“ sagði Emanuel Santos í viðtali við Guardian. Emanuel Santos er nefnilega stoltur af styttunni og ánægður með útkomuna.

„Þetta er spurning um smekk og þetta er ekki eins einfalt og þetta lítur út fyrir að vera. Það sem skiptir máli er þau áhrif sem svona verkefni hefur. Ég var líka viðbúinn svona viðbrögðum. Ég notaði sem grunn myndir af Cristiano sem ég fann á netinu,“ sagði Santos. Hann gerði styttuna í fullri samvinnu við Ronaldo sjálfan.

„Cristiano sá myndirnar af styttunni sem bróðir hans sendi honum. Ég var með bróðir hans í safni Cristiano í Madeira þegar þeir bræður voru í samskiptum. Ég sá að hann var ánægður með útkomuna,“ sagði Santos en bætti við:

„Hann bað bara um breyta nokkrum hrukkum sem gefa honum ákveðinn svip þegar er að hafa fara að hlæja. Hann sagði líka að hann liti út fyrir að vera eldri og bað um að grenna styttuna aðeins til að gera hann glaðbeittari. Þeir samþykktu styttuna fyrir opinberunina og voru ánægðir með útkomuna, sagði Santos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×