Innlent

Kastaði þvagi á dyr Stjórnarráðshússins

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. vísir/eyþór
Lögregla hafði afskipti af manni sem kastaði af sér þvagi á dyr Stjórnarráðshússins í Lækjargötu skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt. Þvagið barst inn í anddyri hússins og var maðurinn kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.

Í dagbók lögreglu kemur einnig fram að tveir ölvaðir menn hafi verið handteknir við veitingahús á Laugavegi þar sem þeir voru með ólæti. Voru þeir vistaðir í fangageymslu vegna ástands síns.

Skömmu eftir klukkan eitt réðst maður á öryggisvörð í verslun í Garðabæ. Var hann handtekinn og færður í fangageymslu. Þá var annar maður handtekinn, einnig í Garðabæ, vegna gruns um heimilsofbeldi.

Þá hafði lögregla einnig afskipti af fjölda fólks vegna vörslu fíkniefna og ölvunar- og fíkniefnaaksturs. Þannig var bíll stöðvaður við Sóltún í Reykjavík þar sem aðilar hlupu frá bílnum. Þeir voru þó handteknir grunaðir um ölvun við akstur. „Þrír handteknir og vistaðir í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls.  Þá var bifreiðin einnig á nagladekkjum,“ segir í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×