Innlent

Vilja sekta fyrir of mikinn meðalhraða

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Myndavélar sem mæla meðalhraða á vegum hafa leitt til umtalsverðrar fækkunar á alvarlegum umferðarslysum í Noregi. Sams konar eftirlit er nú komið í útboðsferli hér á landi. Vegagerðin leggur til eftirlitið verði sett upp víða þar sem slys vegna hraðaksturs eru algeng.

Meðalhraðaeftirlit virkar þannig að tveimur myndavélum er komið fyrir sitt hvoru megin við endann á tilteknum vegkafla. Ein mynd er tekin af ökumanni þegar hann kemur inn á kaflann og önnur þegar farið er út af honum. Lengdin liggur fyrir og er meðalhraðinn reiknaður sjálfvirkt miðað við tímann sem það tekur ökumanninn að komast á milli myndavéla. Þeir sem fara of hratt eru sektaðir.

Forstöðukona hjá Vegagerðinni segir þetta hafa reynst vel í Noregi.

„Slysum og alvarlega slösuðum og látnum í Noregi fækkaði um 49 til 54% við uppsetningu þessa sjálfvirka meðaltalseftirlits," segir Auður Þóra Árnadóttir, forstöðukona hjá Vegagerðinni.

Tæknin var nýverið prófuð á Hringveginum og hefur nú þegar verið leitað eftir tilboðum í uppsetningu á tveimur vegköflum.

„Það hefur þegar verið ákveðið að hafa möguleika á að taka þetta sjálfvirka meðaltalseftirlit upp í nýjum Norðfjarðargöngum og jafnvel hugsanlega á Grindavíkurvegi á kaflanum milli Reykanesbrautar og Bláa Lónsins," segir Auður.

Mun fleiri staðir koma þá einnig til greina og ætlar Vegagerðin að leggja til að meðalhraðaeftirliti verði komið fyrir í næstu samgönguáætlun.

„Þetta hefur fengið ágætan hljómgrunn, bæði hér innan Vegagerðarinnar og hjá lögreglu en einnig hjá ráðuneytinu," segir Auður.

Kostnaður við uppsetningu á hverjum kafla gæti verið um sextíu milljónir króna en samkvæmt skýrslu sem Mannvit vann fyrir Vegagerðina gæti fjárfestingin borgað sig upp á um það bil einu ári. Efitirlitið yrði þó einungis sett upp á köflum þar sem mörg slys verða sem hægt að tengja hraðakstri.

„Þetta yrði mjög fljótt að borga sig upp, fyrst og fremst í minni slysakostnaði. Við erum ekki að þessu til að hanka ökumenn heldur fyrst og fremst til að auka öryggi fólks," segir Auður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×