Rannsóknin beinist að fjármálagjörningum Pauls Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trump, að sögn bandaríska blaðsins Politico. Starfsmenn Mueller og Erics Schneiderman, æðsta lögfræðilega embættismanns New York-ríkis, eru sagðir hafa skipst á gögnum og rætt málin ítrekað síðustu vikurnar.
Á meðal þess sem á að hafa komið á daginn í rannsókn beggja hópa eru vísbendingar um fjárglæpi Manafort, þar á meðal hugsanlegt peningaþvætti. Engar ákvarðanir hafa þó enn verið teknar um ákærur.
Manafort hætti sem kosningastjóri Trump í ágúst í fyrra þegar hann var sakaður um að hafa þegið fé frá aðilum sem tengjast rússneskum yfirvöldum í Úkraínu. Hann hefur neitað öllum ásökunum á hendur honum.
Húsleit var gerð hjá Manafort vegna rannsóknarinnar í lok júlí. Manafort hefur starfað sem málafylgjumaður í Washington um árabil, meðal annars fyrir erlendar ríkisstjórnir.

Samstarf Mueller og Schneiderman er sagt setja aukinn þrýsting á Manafort og gefa rannsakendunum tak á honum og Trump sjálfum.
Rannsakendur dómsmálaráðuneytisins og New York-ríkis eru sagðir hafa áhyggjur af því að það geti dregið úr samstarfsvilja Manafort að hann reiði sig á að Trump náði hann fyrir alla mögulega glæpi sem hann yrði sakfelldur fyrir.
Með aðkomu dómsmálayfirvalda í New York-ríki væri náðunarvopnið hins vegar slegið úr höndum Trump. Hann hefur aðeins vald til þess að náða menn sem hafa verið dæmdir fyrir glæpi gegn alríkisstjórninni, ekki þá sem hljóta dóma innan einstakra ríkja Bandaríkjanna.
Trump hefur ekki sagt opinberlega að hann hafi í hyggju að náða Manafort eða nokkurn annan sem hefur verið nefndur í tengslum við rannsóknina á meintu samráði við Rússa. Hann er hins vegar sagður hafa spurt ráðgjafa sína um völd sín til að náða einstaklinga.
Fyrr í þessum mánuði náðaði Trump umdeildan sýslumann í Arizona sem hafði hlotið dóm fyrir að virða tilskipun alríkisdómstóls að vettugi.